Brasilíski snillingurinn Ronaldinho hjá Barcelona segir að liðið geti gert enn betur en það hefur sýnt á fyrri helmingi keppnistímabilsins á Spáni og fagnar því að liðið þurfi ekki að treysta á neitt annað en sjálft sig til að vinna spænsku deildina.
"Fyrri helmingur tímabilsins hefur gengið mjög vel hjá okkur, en við viljum gera enn betur á þeim síðari. Ég held að styrkur okkar felist í því að við erum nú orðnir vanir því að spila á ákveðinn hátt og þekkjum okkar leikkerfi inn og út," sagði Ronaldinho, en Barcelona hefur verið á gríðarlegri siglingu undanfarið og hefur unnið 17 leiki í röð í öllum keppnum.
"Við þurfum ekki að vera að horfa yfir öxlina og spá í hvað önnur lið eru að gera, því þó við berum virðingu fyrir andstæðingum okkar í deildinni, er það aðeins undir okkur komið að klára deildina og verða meistarar aftur."