Juventus tapaði sínum fyrsta leik í ítölsku B-deildinni í fótbolta í dag gegn Mantova á útivelli, 1-0. Sjálfsmark frá Robert Kovac réði úrslitunum í leiknum en við tapið fellur Juventus niður í 6. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Napoli og einu stigi á eftir Mantova.
Juventus, sem á leik til góða á flesta keppinauta sína í deildinni, var sem kunnugt er dæmt niður um deild eftir að upp komst um spillingu á meðal helstu stjórnenda félagsins. Liðið hóf keppni með níu stig í mínus en hefur spilað mjög vel það sem af er leiktíð og er fyrir nokkru búið að vinna upp stigatapið.