Fótbolti

Garðar: Spenntur og stressaður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Garðar Gunnlaugsson, leikmaður CSKA Sofiu.
Garðar Gunnlaugsson, leikmaður CSKA Sofiu. Mynd/Sænska knattspyrnusambandið

Garðar Gunnlaugsson segist bæði vera spenntur og stressaður fyrir þeirri tilhugsun að flytjast til Búlgaríu og að byrja að spila með CSKA Sofiu.

Garðar var á leiðinni út á flugvöll í Svíþjóð þegar Vísir náði tali af honum en hann lék síðast með Norrköping þar í landi. Hann var markakóngur sænsku 1. deildarinnar á síðasta tímabili er félagið tryggði sér sæti í efstu deild.

„Þetta leggst mjög vel í mig og auðvitað er smá fiðringur í manni," sagði Garðar. „Þetta er þvílíkt ævintýri sem bíður mín og er ég bæði spenntur og stressaður fyrir þessu."

CSKA Sofia er með sögufrægari knattspyrnufélögum Evrópu. Það hefur unnið búlgarska meistaratitilinn 31 sinni og er ásamt Celtic og Rangers í hópi farsælustu Evrópuliða í sínu heimalandi.

Garðar verður með númerið 34 hjá félaginu en hann vonast auðvitað til að fá að spila sem mest með liðinu.

„Vonandi tekst okkur líka að komast í Evrópukeppnina á nýjan leik. Félagið varð meistari á síðustu leiktíð en dæmt úr Evrópukeppninni þar sem maður innan félagsins var að draga að sér pening. Hann situr nú í fangelsi og nýr forseti hefur tekið við. Félagið er því búið að koma sér á réttan kjöl á ný."

Auk þess segir hann að töluverð endurnýjun hafi átt sér stað innan leikmannahópsins. „Félagið var með nokkuð gamlan leikmannahóp og seldu því nokkra af eldri leikmönnunum. Liðið er því orðið nokkuð ungt nú."

Garðar segir að fjárhagslega hlið samningsins skemmi ekki fyrir. „Þetta er töluvert betra en í Svíþjóð auk þess sem það er bara tíu prósent skattur þarna. Ég er ekki einungis að fara þangað vegna peninganna en það hefur sitt að segja. Ég lít á þetta sem næsta þrep í mínum ferli og vonandi verður þetta engin endastöð fyrir mig."

Garðar hefur ekki enn fengið tækifæri með A-landsliði Íslands en vonast vitanlega til að fá kallið síðar meir.

„Auðvitað vill maður fá að spila fyrir hönd þjóðar sinnar en ég hef ekki gert það síðan ég gekk upp úr 21 árs landsliðinu. En ég er ekkert að velta því fyrir mér, það kemur bara þegar það kemur. En Óli (landsliðsþjálfari) er velkominn hingað í kaffi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×