Íslenski boltinn

Ísland upp um tvö sæti á styrkleikalista FIFA - er í 75. sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Jóhannesson er að gera góða hluti með karlalandsliðið.
Ólafur Jóhannesson er að gera góða hluti með karlalandsliðið. Mynd/E.Stefán

Íslenska karlalandsliðið er komið upp í 75. sæti á Styrkleikalista FIFA en nýr listi var gefinn út í dag. Íslenska liðið hækkaði sig upp um tvö sæti og hefur þar með farið upp um átta sæti á árinu 2009.

Þetta var þriðji mánuðurinn í röð þar sem íslenska liðið hækkar sig. Liðið var í 83. sæti í desember, 80. sæti í janúar og í 77. sætinu í síðasta mánuði.

Það hefur orðið mikil breyting á stöðu íslenska liðsins á síðustu mánuðunum því það er ekki lengra síðan en í september síðastliðnum að Ísland var í 107. sæti á listanum. Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur því komið liðinu upp um 32 sæti á aðeins hálfu ári.

Norðmenn, sem eru með Íslendingum í riðli í undankeppni fyrir HM 2010, eru ein af þeim þjóðum sem eru hástökkvarar listans í þetta skiptið. Norðmenn fara alls upp um 11 sæti og eru í 45. sæti en þar vegur þungt sigur liðsins á Þjóðverjum í fyrsta leiknum undir stjórn Egil Drillo Olsen.

Hinir mótherjar Íslendinga í riðlinum eru í eftirtöldum sætum: Holland er í 3. sæti, Skotland er í 28. sæti og Makedónía í 62. sæti.

Evrópumeistarar Spánverjar eru áfram í efsta sæti listans en Evrópuþjóðir skipa fjögur hæstu sætin. Þýskaland er í öðru sæti, Holland er í þriðja sæti og Ítalía í því fjórða. Brasilíumenn koma síðan í fimmta sætinu efstir þjóða utan Evrópu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×