Innlent

Reykjavík styðji við framgang friðar

Leiðtogar stórveldanna hittust í Reykjavík 1986. fréttablaðið/anton
Leiðtogar stórveldanna hittust í Reykjavík 1986. fréttablaðið/anton
Tillagna um hvernig staðið verði að Friðarstofnun Reykjavíkur er að vænta í byrjun nýs árs.

Starfshópur fjögurra borgarfulltrúa hefur fjallað um málið síðustu mánuði, aflað upplýsinga og leitað hugmynda. Liður í því var fundur tveggja fulltrúa, Júlíusar Vífils Ingvarssonar og Óttars Proppé, með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta á dögunum. „Við höfum hitt ýmsa aðila sem hafa unnið að friðarmálum og alþjóðasamskiptum,“ segir Óttarr.

Unnið er á grundvelli tillögu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar sem samþykkt var í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili. Er hún spunnin utan um Höfðafund Reagans og Gorbatsjovs 1986.

„Hugmyndin er að nýta styrkleika borgarinnar til að vinna að friðarmálum og sjá hvernig hún getur stutt við framgang friðar. Þetta er enn mjög opið.

Reykjavík fer líklega ekki að keppa við risastórar og vel fjármagnaðar stofnanir í útlöndum þannig að við þurfum að nýta íslenska töffaraskapinn til að gera eitthvað skemmtilegt,“ segir Óttarr.

Umhverfismál eru undirliggjandi í starfi hópsins, sem að sögn Óttars skilgreinir verkefni sitt vítt. „Friður felst ekki bara í því að stoppa byssukúlur heldur stuðla almennt að friðsamlegra og betra lífi.“ Endurnýjanleg orka og sjálfbær þróun skipti þannig máli.- bþs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×