Innlent

Á fimmta hundrað manns á mótmælum

Valur Grettisson skrifar

Á fimmta hundrað mótmælendur slá tunnur á Austurvelli. Ástæðan er sú að Alþingi er nú komið saman aftur. Mótmælendur krefjast meðal annars að þing verði rofið og utanþingsstjórn skipuð.

Þrír lögreglumenn fylgdust með mótmælunum sem fóru vel fram. Kona kvartaði hinsvegar undan karlmanni sem virtist ofurölvi. Sá maður var fjær mótmælunum en lögreglan ræddi við hann.

Rétt áður en mótmælin hófust stóð Lilja Mósesedóttir, þingmaður Vinstri grænna, fyrir utan Alþingi og ræddi við mótmælendur.

Þeir hvöttu hana til þess að sleppa því að fara inn á þing þar sem fundir voru þá að hefjast og mótmæla frekar.

Þá sást einnig til Unnar Brá Konráðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún ræddi við mótmælendur.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar virtist vera á hraðferð þegar hún gekk hröðum skrefum áleiðis að Alþingi. Hún stoppaði ekki til þess að ræða við mótmælendur, enda var þá klukkan orðin tvö og þing að hefjast.

Myndatökumaður Stöðvar 2 var á staðnum og tók meðfylgjandi myndskeið.

Þú getur líka smellt hér til að horfa á frétt Stöðvar 2 um málið






Fleiri fréttir

Sjá meira


×