Erlent

Mynd sem gæti bjargað jörðinni

Óli Tynes skrifar
Lutetia er þaking gígum.
Lutetia er þaking gígum. Mynd/ESA
Rosetta, geimfar Evrópsku geimferðastofnunarinnar hefur tekið myndir af stærstu smástjörnu sem menn hafa augum litið. Smástjarnan hefur fengið nafnið Lutetia. Hún er dálítið eins og löng kartafla í laginu og er um 120 kílómetrar að lengd.

Lutetia er í beltinu á milli Júpiters og Mars. Hún er þakin gígum eftir loftsteina sem á henni hafa dunið.

Og Lutetia hefur haft nægan tíma til að safna þessum gígum því hún er talin vera vel yfir fjögurra milljarða ára gömul.

Fyrir þá sem vilja hafa dálitla spennu í geimvísindum má geta þess að myndirnar af Lutetiu gætu hugsanlega gagnast við að verja jörðina.

Hægt er að nota myndirnar af gígunum til þess að mæla massa hennar og þéttleika.

Og það eru nauðsynlegar upplýsingar ef þarf að að breyta stefnu á, eða sprengja í sundur smástirni sem stefnir á jörðina.

Megi mátturinn vera með okkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×