Innlent

Segir störf sín fyrir Glitni ekki svipta sig sjálfstæði

Sigríður Mogensen skrifar
Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson.

Slitastjórn Glitnis sakar Brynjar Níelsson, formann Lögmannafélags Íslands, um að rjúfa trúnað með því að skrifa lögfræðiálit fyrir sjömenningana sem slitastjórnin hefur stefnt í New York.

Brynjar neitar þessu og segist ekki missa sjálfstæði sitt sem lögmaður þó hann hafi áður starfað fyrir slitastjórnina.

Slitastjórn Glitnis krefst þess að lögfræðiálit Brynjars Níelssonar, formanns Lögmannafélags Íslands, sem nýlega var lagt fyrir dómstól í New York verði ógilt, en álitið var lagt fram af lögmönnum stefndu.

Slitastjórnin segir að hvorki hafi lögmenn stefndu né Brynjar sjálfur, upplýst dómstólinn um það að Brynjar hafi þangað til í júlí á þessu ári starfað sem ráðgjafi fyrir slitastjórnina.

„Þó ég hafi starfað fyrir slitastjórn Glitnis missi ég ekki sjálfstæði mitt sem lögmaður. Ég er ekki að vinna neitt lögfræðiálit fyrir stefndu í þessu máli," segir Brynjar um stöðu sína í málinu.

Brynjar segist einungis vera að andmæla skoðun slitastjórnarinnar, sem byggir á áliti forseta Lagadeildar HR, þess efnis að íslenskir dómstólar ráði ekki við málið.

„Mér finnst afar sérkennilegt að það sé verið að rýra traust og trúverðugleika íslenska dómstóla úti í Bandaríkjunum, þar sem þetta er einfaldlega rangt. Ég sé enga ástæðu til þess að íslenskir dómstólar geti ekki ráðið við þetta mál, mál af þessu tagi hér eftir sem hingað til," segir hann.

Brynjar segist einungis gefa yfirlýsingu þess efnis. Hann vinni ekki að öðru leyti fyrir sjömenningana sem slitastjórnin hefur stefnt í New York.

„Ég tek enga afstöðu til þess hvort það kunni að vera önnur sjónarmið til að reka þetta mál í Bandaríkjunum," segir Brynjar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×