Íslenski boltinn

Haraldur Guðmundsson: Það er kominn Willumsbragur á liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haraldur Guðmundsson, fyrirliði Keflavíkur, í leiknum í kvöld.
Haraldur Guðmundsson, fyrirliði Keflavíkur, í leiknum í kvöld. Mynd/Valli

Haraldur Guðmundsson, fyrirliði Keflavíkur, var ánægður eftir 1-0 sigur á bikarmeisturum Blika í Kópavoginum í kvöld.

„Þetta er sterk byrjun hjá okkur. Við komum á mjög erfiðan útivöll og tókum þrjú stig. Þetta er vinnusigur." sagði Haraldur.

Keflavík fékk fullt af færum í seinni en náði þó aldrei að komast í 2-0. Vörnin hélt hinsvegar út og liðið byrjar mótið á góðum útisigri.

„Það hefði getað verið dýrt að nýta ekki færin sem við fengum en við náðum að róa þessu í land og það er gaman af því.Við höfum verið að vinna vel í því í vetur að fá gott skipulag á liðið. Það er komin fín mynd á liðið. Menn eru að taka metrann fyrir hvern annan og eru að berjast. Það er flott," sagði Haraldur.

Haraldur segir að áhrifin frá Willum Þór Þórssyni séu strax sjáanleg á Keflavíkurliðinu.

„Það er komin hans bragur á liðið," sagði Haraldur og það er hægt að taka undir það enda skipulagið gott, menn skynsamir í öllum aðgerðum og að berjast í öllum boltum.

„Við fengum þrjú stig út úr þessum leik en þetta er bara einn leikur af 22. Við eigum erfiðan útileik næst á móti Grindavík," sagði Haraldur en hann neitar því ekki að Keflvíkingar ætla sér stóra hluti í sumar.

„Það býr alveg helling í liðinu og við vitum það. Við höfum gefið það út fyrir mót að við ætlum að reyna að blanda okkur í toppbaráttuna. Svo verðum við bara að sjá til hvort við séum í þeirri stöðu þegar líður á mótið og hvort við náum að berjast um titilinn. Það var mjög gott að byrja á því að taka þrjú stig á móti Blikum á útivelli," sagði Haraldur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×