Innlent

Vel heppnað uppboð í Góða hirðinum til styrktar Bjarkarási

Tónlistarmaðurinn KK var uppboðshaldari og gaf hann vinnu sína til styrktar góðu málefni
Tónlistarmaðurinn KK var uppboðshaldari og gaf hann vinnu sína til styrktar góðu málefni
Alls söfnuðust 301 þúsund krónur á uppboði í Góða hirðinum, nytjamarkaði Sorpu, sem haldið var á föstudag til styrktar Bjarkarási.

Uppboðið er annað í röðinni á skömmum tíma til styrktar Bjarkarási, sem er ein af stofnunum Áss styrktarfélags sem veitir fötluðu fólki dagþjónustu, hæfingu og vinnu. Alls hafa því safnast 687 þúsund krónur sem renna óskiptar til styrktarfélagsins.

Uppboðshaldari var tónlistarmaðurinn KK sem gaf vinnu sína til styrktar góðu málefni.

Í Bjarkarás kemur fjölbreyttur hópur fullorðins fólks með ólíkar þarfir. Margir þeirra eru í starfsþjálfun af einhverju tagi, aðrir fá aðstoð við að efla félagslega færni og enn aðrir nýta listræna hæfileika sína til sköpunar eða taka þátt í ræktun grænmetis í gróðurhúsinu. Um 50 manns koma í Bjarkarás í viku hverri.

Markmið Góða hirðisins er að stuðla að endurnotkun, minnka sóun og láta gott af sér leiða, því ágóði af sölu í Góða hirðinum rennur til ýmissa góðgerðarmála. Gott samstarfs starfsmanna endurvinnslustöðva og Góða hirðisins við viðskiptavini sem bæði gefa notaða húsmuni til Góða hirðisins og versla í versluninni, gerir það að verkum að á hverju ári er hægt er að styrkja góð málefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×