Innlent

Krefjast utanþingsstjórnar við þingsetninguna í dag

Frá mótmælum við Austurvöll
Frá mótmælum við Austurvöll Mynd: Vilhelm Gunnarsson

Í tilefni þess að þingheimur kemur saman að nýju í dag hefur verið boðað til mótmæla við Alþingishúsið í dag þar sem þess er krafist að Alþingi samþykki utanþingsstjórn. Þingfundur hefst klukkan tvö og mótmælin sömuleiðis.

Skipuleggjendur mótmælanna segja ástæðuna vera þá að þeim finnst Alþingi hafa brugðist því hlutverki sínu að gæta hagsmuna almennings í landinu og týnt sér í hagsmunagæslu sjálfs sín og flokkakerfisins.

„Frá bankahruninu hefur ekkert verið gert sem hefur dugað til að leysa skuldavanda heimilanna eða mæta þeirri alvarlegu stöðu sem ríkir ...í atvinnumálum landsmanna. Af öllu samanlögðu er það því ekki skrýtið að Alþingi nýtur ekki trausts nema um 9% þjóðarinnar," segir í tilkynningu um boðuð mótmæli.

„Utanþingsstjórn er ætlað það forgangsverkefni að vinna gegn því heilsuspillandi og lífshættulega ástandi sem íslensk stjórnmálastétt hefur skapað og viðheldur með ráðþægni sinni við peningaöflin á kostnað okkar almennings.

Við hvetjum atvinnurekendur og stofnanir um allt land til að gefa frí þennan dag og fólk utan af landsbyggðinni til að fjölmenna með okkur á Austurvöll. Sameinum krafta okkar og knýjum fram samfélagssáttmála sem stuðlar að jafnvægi í þjóðfélaginu. Samstaða er nefnilega aflið sem þarf til að knýja fram breytingar!," segja mótmælendur.

Forsvarsmenn mótmælanna í dag vekja einnig athygli á undirskriftarsíðu þar sem skorað er á forseta Íslands að skipa utanþingsstjórn nú þegar.

Á Facebook-síðu mótmælanna í dag hafa tæplega 900 tilkynnt þátttöku sína.

Stjórnendur Facebook-síðunnar þar sem boðað er til mótmælanna eru: Rakel Sigurgeirsdóttir, Arndís Einarsdóttir, Kristín Snæfells Arnþórsdóttir, Þorvaldur Óttar Guðlaugsson, Ævar Rafn Kjartansson og Kolbrun Pálína Haþórsdóttir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×