Innlent

Máli Glitnis gegn sjömenningum í New York vísað frá

Dómari í New York hefur vísað frá máli slitastjórnar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og sex viðskiptafélögum hans. Dómari komst að þeirri niðurstöðu að vísa bæri málinu frá á þeim forsendum að allir málsaðilar séu íslenskir og því beri að flytja málið á Íslandi. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar staðfestir þetta í samtali við Vísi.

Slitastjórn Glitnis hóf í maí á þessu ári málaferli fyrir dómstóli í New York ríki í Bandaríkjunum gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Lárusi Welding, Hannesi Smárasyni, Pálma Haraldssyni og fleirum en slitastjórnin telur að Jón Ásgeir og viðskiptafélagar hans hafi með sviksamlegum og ólöglegum hætti haft fé af bankanum sem nemi meira en tveimur milljörðum bandaríkjadala, eða um 230 milljörðum króna á núverandi gengi. Málið var þingfest fyrir rétti í borginni þann 11. maí. Lögmenn stefndu vildu að málinu yrði vísað frá, og sögðu að það ætti ekki heima í New York, þar sem allir málsaðilar séu íslenskir. Slitastjórn Glitnis og lögmenn hennar héldu því hins vegar fram að bandarískir fjárfestar hefðu verið blekktir.




















Tengdar fréttir

Skaðabótamál Glitnis: Frávísunarkrafa tekin fyrir í dag

Málflutningur vegna frávísunarkröfu hinna stefndu í skaðabótamáli Glitnis í New York hefst klukkan fjögur í dag að íslenskum tíma. Sjömenningarnir og PriceWaterHouseCoopers, endurskoðunarfyrirtæki Glitnis, krefjast þess að málinu verði vísað frá dómi í New York.

Jón Ásgeir: Förum líklega í skaðabótamál

„Ég er ánægður með niðurstöðuna. Þetta er búinn að vera erfiður tími frá því 11. maí. Slitastjórnin fór yfir strikið gagnvart okkur," segir Jón Ásgeir Jóhannesson, í samtali við Pressuna. Dómari í New York vísaði í dag máli slitastjórnar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri og sex viðskiptafélögum hans. Hann segir að slitastjórnin hljóti að sæta ábyrgð og hætta.

Steinunn: Glitnismálið rekið hér heima

„Dómarinn komst að þessari niðurstöðu. Hann taldi að málið ætti heima á Íslandi en hann setti hins vegar tvö skilyrði sem stefndu verða að uppfylla,“ segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis. Hæstiréttur í New York vísaði í dag frá stefnu slitastjórnarinnar gegn sjömenningum sem stefnt hafði verið vegna ásakana um með sviksamlegum og ólöglegum hætti haft fé af bankanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×