Innlent

Björgunarsveitarmenn saman í bíó

Jóhann og félagar í björgunarsveitinni Suðurnes fóru á heimildarmyndina Norð Vestur – Björgunarsaga.
Jóhann og félagar í björgunarsveitinni Suðurnes fóru á heimildarmyndina Norð Vestur – Björgunarsaga.
25 menn úr björgunarsveitinni Suðurnes í Reykjanesbæ fóru í hópferð á heimildarmyndina Norð Vestur - Björgunarsaga, sem fjallar um snjóflóðið á Flateyri árið 1995.

Jóhann Berthelsen, sem hefur verið í tíu ár í björgunarsveitinni, var ánægður með myndina. „Hún snerti mig mjög mikið út af því að ég er fæddur og uppalinn á Vestfjörðum, reyndar á Tálknafirði. En ég átti frænku sem fórst í slysinu sem var jafngömul mér," segir Jóhann. Þrír úr sveitinni Suðurnes tóku þátt í björgunarstarfinu eftir snjóflóðið en björgunaraðgerðirnar eru á meðal þeirra stærstu sem Almannavarnir og Landsbjörg hafa staðið fyrir.

Jóhann og félagar fóru á þremur björgunarsveitarbílum í bíóið og vöktu að vonum mikla athygli bæjarbúa. Einnig voru þeir allir klæddir björgunarsveitarpeysum á sýningunni. Spurður hvort þeir hafi ekki óttast að lenda í útkalli á miðri sýningu segir Jóhann: „Við gerðum smá grín að því að það væri dálítið fyndið ef það væri útkall," segir hann en sem betur fer gerðist það ekki.

Fleiri björgunarsveitir hafa farið í hópferðir á heimildarmyndina, þar á meðal Hjálparsveit skáta í Hveragerði. Í næstu viku ætlar síðan Hjálparsveit skáta í Kópavogi, sem er með rústabjörgunarsveit innan sinna raða, að fara á myndina.- fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×