Innlent

Heimsækir stríðshrjáð börn í Úganda

Gerður Kristný segist vera forvitin að sjá hvernig skólabörn í Norður-Úganda hafa það. Fréttablaðið/Anton
Gerður Kristný segist vera forvitin að sjá hvernig skólabörn í Norður-Úganda hafa það. Fréttablaðið/Anton

Gerður Kristný, rithöfundur og skáld, leggur af stað í ferðalag til Norður-Úganda í Afríku á laugardag. Hún slæst þar í för með starfsmönnum Barnaheilla - Save the Children á Íslandi sem eru með verkefni í landinu sem miðar að því að að auka skólaaðgang og bæta gæði menntunar yfir 30.000 barna í Pader-héraði fram til ársins 2011.

„Við ætlum að heimsækja skóla þarna úti og sjá hvernig börnin hafa það. Síðan ætla ég að lesa upp úr barnabókum mínum, Mörtu smörtu fyrir eldri börnin en Jóladýrunum fyrir yngri börnin og sýna þeim myndirnar í henni eftir Brian Pilkington. Svo segi ég krökkunum aðeins frá börnunum á Íslandi," útskýrir Gerður og getur þess að hennar hlutverk verði auk þess að skrásetja það sem fyrir augu ber í ferðinni. „Ég ætla að halda úti bloggi á Eyjunni og mun setja inn nýjar færslur á hverjum degi. Fyrsta færslan birtist reyndar strax í gær."

Mikil stríðsátök hafa verið í Norður-Úganda síðastaliðna tvo áratugi, sem hafa leitt til umtalsverðra hörmunga, mannfalls og eyðileggingar. Þúsundir manna eru eða hafa dvalið í flóttamannabúðum og hreinlætisaðstaða, heilbrigðisstarf og menntun er verulega ábótavant í landinu. Í Pader-héraði einu er til að mynda einn kennari fyrir hver rúmlega 100 börn og aðeins 30 prósent nemenda ljúka grunnnámi, eða 17 prósent stúlkna og 43 prósent drengja.

Spurð hvort hún kvíði fyrir ferðinni, segist Gerður Kristný hafa litlar áhyggjur af eigin öryggi þar sem hún muni ferðast í hópi með þaulreyndu fólki, Jakobi Halldórssyni kvikmyndatökumanni og Petrínu Ásgeirsdóttur og Helga Ágústssyni, framkvæmdastjóra og formanni Barnaheilla - Save the Children á Íslandi. „Ég er fyrst og fremst forvitin að sjá hvernig börnin hafa það. Sjálf veit ég lítið um Norður-Úganda og þegar ég ætlaði að afla mér upplýsinga kom mér verulega á óvart hvað lítið er til af bókum um landið. Það er greinilega ekki mikil ástæða til að gefa út bækur um það fyrir ferðamenn."

Þetta er í fyrsta skipti sem Gerður Kristný kemur til Afríku og kveðst hún því hlakka mikið til fararinnar. „Ég er ákaflega spennt, þar sem ég þekki marga sem ferðast hafa um álfuna og snúið aftur alveg heillaðir, haldnir eins konar Afríkusýki," segir hún og útilokar ekki að ferðin eigi eftir að veita sér innblástur við ritstörfin. „Ég þykist viss um að ferðin muni birtast með einhverjum hætti í verkum mínum í framtíðinni."

Eins og áður sagði leggur hópurinn af stað á laugardag og snýr svo aftur heim til Íslands 14. nóvember.

roald@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×