Erlent

N-Kórea tilbúin að gera hlé á kjarnorkuáætlun

Medvedev (vinstri) og Kim Jong-il (hægri) áttu fund í dag.
Medvedev (vinstri) og Kim Jong-il (hægri) áttu fund í dag. Mynd/AFP
Kim Jong-il gaf það út á fundi í dag með rússlandsforseta, Dimitry Medvedev, að Norður Kórea væri reiðubúin að gera hlé á framleiðslu kjarnavopna og tilraunum sínum með kjarnorku. Þessi tilkynning gæti greitt götu viðræðna milli sex þjóða sem sigldu í strand árið 2008.

Frá árinu 2003 unnu Suður Kórea, Kína, Japan, Bandaríkin, Rússland og Norður Kórea að því að ná samkomulagi um eyðingu kjarnavopna sinna. Viðræðurnar enduðu snögglega árið 2008 og síðan hefur Norður Kórea gert miklar tilraunir með kjarnavopn og langdrægar eldflaugar. Í kjölfarið hefur landið einangrast mjög á heimssviðinu. Nú segist Kim Jong-il reiðubúinn að hætta tilraunum sínum, en í janúar á þessu ári gerðu Bandaríkin það að skilyrði fyrir því að hefja aftur sex þjóða viðræðurnar að Norður Kórea hætti kjarnorkutilraunum sínum.

Þrátt fyrir yfirlýsingar Kim Jong-il efast sérfræðingar um að N-Kórea gefi nokkurn tíman upp kjarnavopn sín, enda veita þau landinu ákveðna vikt á alþjóðavettvangi. Landið þarf hins vegar sárlega á hjálp að halda eftir hungursneyð og flóð síðustu mánuði. Með yfirlýsingu sinni vonast Kim líklega til þess að önnur ríki verði viljugri við að rétta N-Kóreu hjálparhönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×