Erlent

Rick Perry gæti skákað Romney

Rick Perry
Rick Perry
Rick Perry fylkisstjóri í Texas er talinn líklegur til að gefa loks kost á sér í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar á næsta ári eftir mánaða vangaveltur. Verði af því, þykir stjórnmálaskýrendum líklegt að hann komist strax í hóp þeirra sigurstranglegustu.

Sem stendur hefur Mitt Romney forystu í flestum viðhorfskönnunum og þar á eftir eru Michele Bachmann og Tim Pawlenty. Hópurinn að þessu sinni þykir ansi þunnskipaður og ólíklegt að nokkur þar muni geta velt Barack Obama úr forsetastólnum.

Romney hefur ekki enn náð að sannfæra repúblikana um ágæti sitt þar sem hann, í tíð sinni sem fylkisstjóri Massachusets, stóð meðal annars fyrir umbótum í heilbrigðismálum, sem þykja full líkar þeim sem demókratar komu í gegnum þingið í fyrra, íhaldsmönnum til lítillar gleði.

Perry gæti hins vegar komið sterkur inn, en margt getur gerst á þeim fimm mánuðum sem eru í fyrstu forkosningarnar.

Athyglisvert verður þó að fylgjast með tilraunakosningu sem fer fram í Iowafylki í dag. Þó að hún hafi ekkert að segja opinberlega, gæti verið að einhverjir myndu heltast úr lestinni í ljósi slæmrar útkomu þar.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×