Innlent

Mönnum vísað frá er þeir mæta í afplánun

Meðal þeirra sem sitja í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni eru tveir sautján ára unglingar.
Meðal þeirra sem sitja í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni eru tveir sautján ára unglingar.

„Öll fangelsin eru yfirfull, tvímennt í klefa þar sem það er mögulegt og við höfum þurft að vísa mönnum frá sem mætt hafa til afplánunar auk þess sem fangar hafa verið vistaðir á lögreglustöðvum.“

Þetta segir Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar. Páll segir að brotamenn hafi verið boðaðir til afplánunar með góðum fyrirvara svo þeir gætu undirbúið sig. Þegar á hafi reynt hafi gæsluvarðhaldsfangar verið komnir í klefana og mennirnir því ekki getað hafið boðaða afplánun.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gerist það mörgum sinnum í viku að boðaðri afplánun sé frestað. Slíkt getur tekið á fyrir brotamenn því þeir þurfi ekki bara sjálfir að undirbúa sig heldur einnig fjölskyldur og jafnvel vinnuveitendur.

Að undanförnu hafa óvenjumargir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Páll segir stöðuna nú keyra langt úr hófi fram. „Ástandið er óþolandi,“ segir hann. „Nú sæta tuttugu og fjórir einstaklingar gæsluvarðhaldi.“

Páll segir öll einangrunarpláss fullsetin. Á síðustu tíu dögum hafi þurft að vista átta gæsluvarðhaldsfanga á lögreglustöð.

„Við höfum lengi starfað undir miklu álagi en nú er svo komið að það álag verður ekki aukið,“ segir hann. „Skiljanlega gera lögmenn þeirra sem vistaðir eru í fangaklefum lögreglu athugasemdir við það en við höfum einfaldlega ekkert val þegar allt er troðfullt.“

Páll minnir á að lengi hafi staðið til að byggja nýtt fangelsi. „Ef fangelsið verður ekki byggt þegar í stað lendum við í enn frekari vandræðum.” -jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×