Innlent

Halla Hrund sótti ekki um nýja forstjórastöðu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Halla Hrund Logadóttir bauð sig fram til forseta á vormánuðum.
Halla Hrund Logadóttir bauð sig fram til forseta á vormánuðum.

Sex sóttu um embætti forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar en Halla Hrund Logadóttir, núverandi Orkumálastjóri og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, er ekki þeirra á meðal.

Listinn hefur verið birtur á vef Stjórnarráðs Íslands en á honum eru Björn Arnar Hauksson, deildarstjóri hjá Orkustofnun, Gestur Pétursson, M.Sc. iðnaðar- og rekstrarverkfræði, Halla María Sveinbjörnsdóttir, lögfræðingur og mannauðsstjóri, Markús Ingólfur Eiríksson, doktor í endurskoðun, Rakel Rún Karlsdóttir, jarðfræðingur, og Soffía Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri.

Hæfisnefnd skipuð af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mun meta hæfni og hæfi umsækjenda og skila greinargerð til ráðherra.

Embætti forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar var auglýst fyrr í sumar eftir að Alþingi samþykkti frumvörp um nýja Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun. Breytingarnar fólu í sér sameiningu Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar en Náttúruverndarstofnun tók við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar.

Stofnanirnar taka til starfa 1. janúar 2025.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×