Innlent

Borgarráð framlengi ekki veitingaleyfi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Íbúarnir vilja að borgarráð mæli ekki með framlengingu vínveitingaleyfis.
Íbúarnir vilja að borgarráð mæli ekki með framlengingu vínveitingaleyfis.
Stjórn Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur styður kröfu nágranna við veitingastaðina Monaco og Monte Carlo á Laugavegi og skorar á borgarráð að mæla ekki með framlengingu veitingaleyfa staðanna.

Í yfirlýsingu frá stjórn Íbúasamtakanna kemur fram að veitingastaðirnir séu nú á bráðabirgðaleyfi og séu mjög umdeildir enda hafi verslunareigendur og íbúar í nágrenninu oft þurft að kvarta yfir þeim. Þetta hafi komið glöggt fram á borgarafundi í Ráðhúsinu 14. febrúar síðastliðinn en þar lásu leikarar upp reynslusögur nágrannanna sem ekki vildu tjá sig undir nafni af ótta um öryggi sitt.

Stjórn Íbúasamtakanna segir að réttur eins rekstraraðila megi ekki ganga svo langt að hann gangi á rétt annarra rekstraraðila eða íbúa og valdi þeim tjóni. Fram hafi komið að fyrirtæki á svæðinu velti 300 milljörðum og því sé um gríðarlega hagsmuni að ræða og í meira lagi vafasamt að stefna þeim í hættu. Ekki beri að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×