Erlent

Liðsauki lögreglu streymir til Lundúna

Óli Tynes skrifar
Glæpagengi fara um rænandi og sruplandi.
Glæpagengi fara um rænandi og sruplandi.
David Cameron forsætisráðherra Bretlands hélt fund með COBRA nefndinni svokölluðu í morgun en hún er annars sjaldnast kölluð saman nema á stríðstímum þegar þjóðaröryggi er ógnað. Og forsætisráðherrann talaði tæpitungulaust við fréttamenn á eftir.

 

Cameron sagði að óeirðaseggirnir skyldu ekki vera í neinum vafa um að þeir muni finna fyrir fullum þunga laganna.

Hann sagði að liðsauki lögreglumanna frá öðrum héruðum streymdi nú til Lundúna. Síðastliðna nótt hefðu verið sexþúsund lögreglumenn á vakt í höfuðborginni en í kvöld yrðu þeir sextán þúsund. Þeir myndu einnig ganga fram af mun meiri hörku en hingaðtil.

 

Forsætisráðherrann sagði einnig að breska þingið yrði kallað saman til aukafundar á fimmtudag, þar sem óeirðirnar yrðu eina málið á dagskrá.

 

Óeirðaseggirnir hafa þegar valdið milljarðatjóni í Lundúnum. Mörg hús stóðu í björtu báli í nótt og miklar aðrar skemmdir unnar. Einnig virtust óeirðirnar vera að breiðast út því það kom einnig til átaka milli lögreglu og óeirðaseggja í Birmingham, Bristol og Liverpool.

 

Löngu er ljóst að þetta eru ekki neinar mótmælaaðgerðir eins og lagt var upp með í byrjun. Á myndum frá Lundúnum má sjá grímuklædd þjófagengi hamast á rúðum verslana. Og þegar þeim tekst að brjóta sér leið inn er öllu stolið steini léttara.

 

Lögreglan segir að rafrænir samskiptavefir hafi eitthvað verið notaðir til að safna saman liði til átaka. En nú eru fleiri komnir inn á samskiptavefi. Það er farið að safna saman fólki til þess að hjálpa björgunarsveitum við tiltektir eftir skemmdarverkin. Fólk er hvatt til að taka þátt í hreinsunum í sínum hverfum. Það hafa einnig birst myndir af einstaklingum eins og svörtu konunni sem bauð skrílnum byrgi fyrir framan verslun sem hann var að reyna að brjótast inní.

 

Þetta eru almennir Lundúnabúar sem vilja endurheimta borgina sína úr höndum glæpamanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×