Erlent

Langt í sameiginlega hagstjórn ESB

Yfirlýsingar leiðtoga öflugustu ríkjanna á evrusvæðinu um aukna sameiginlega hagstjórn ríkja á svæðinu virtust ekki róa fjárfesta því hlutabréfavísitölur féllu í dag. Sérfræðingar segja mjög langt í að sameiginleg hagstjórn á evrusvæðinu verði að veruleika.

Angela Merkel kanslari Þýskalands og Nicolas Sarkozy forseti Frakklands lýstu því yfir á sameiginlegum blaðamannafundi í gær að stefnt yrði að aukinni sameiginlegri hagstjórn ríkjanna á evrusvæðinu. Sarkozy talaði á fundinum um sérstaka efnahagsstjórn fyrir Evrópu, sem myndi hittast a.m.k tvisvar á ári, undir forsæti Herman Vom Rompuy, forseta Evrópusambandsins.

Þá kölluðu þau Merkel og Sarkozy eftir því að ríkin á evrusvæðinu myndu binda ákvæði um jöfnuð í ríkisfjármálum í stjórnarskrár sínar.

Helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu lækkuðu í morgun, og virtust yfirlýsingar leiðtoganna ekki hafa náð því markmiði sínu að róa fjárfesta.

Sérfræðingar á mörkuðum í Evrópu segja að enn sé langt í að sameiginleg hagstjórn verði að veruleika og því hafi yfirlýsingar í þá veru takmarkaða þýðingu enn um sinn.

Á fundinum í gær hafnaði Angela Merkel útgáfu sameiginlegra skuldabréfa fyrir ríkin á evrusvæðinu og sagði að það yrði aðeins að veruleika ef auknum efnahagslegum samruna yrði náð. Og svo virðist sem fjárfestar hafi búist við einhverju meiru frá leiðtogunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×