Erlent

11 ára drengur hringdi í lögguna og kvartaði undan þrælkun

Aðeins 11 ára gamall drengur hringdi í neyðarlínu lögreglunnar í Þýskalandi til þess að kvarta undan því að honum væri haldið í þrælkunarvinnu á heimili sínu.

Fjallað er um málið á vefsíðu BBC en drengurinn býr í borginni Aachen. Þýska lögreglan segir að drengurinn hafi tjáð þeim að hann þyrfti að vinna á heimilinu allan daginn og hefði engan frítíma aflögu.

Samkvæmt upptöku af símtalinu sem birt hefur verið í þýskum fjölmiðlum spurði lögregla drenginn hverskonar þrælkunarvinnu væri um að ræða. Drengurinn sagðist þurfa að þrífa til á heimilinu og hreinsa verönd þess. Aðspurður um hvort hann vissi hvað þrælkunarvinna væri sagðist drengurinn vera með það á hreinu.

Þegar hér var komið sögu var móðir drengsins komin að hlið hans og tók við símanum. Hún tjáði lögreglunni að drengurinn hefði ítrekað hótað því að hringja í neyðarlínuna. Móðirin sagði að hún hefði beðið son sinn um að taka til eftir sig en hann vildi helst leika sér allan daginn. Það var þessi tiltekt sem drengurinn kallaði þrælkunarvinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×