Erlent

Rakari missti allt sem hann átti í óeirðunum í London

Lundúnarbúar eru byrjaðir að safna peningum til að styrkja tæplega níræðan rakara en stofan hans var lögð í rúst í óeirðunum um síðustu helgi. Tæplega átta hundruð óeirðarseggir hafa verið ákærðir.

Aron Biber er 89 ára. Hann er rakari og hefur verið það allt sitt líf. Rakarastofan hans er í Tottenham-hverfinu í London en þar var sem óeirðirnar brutust út um síðustu helgi. Rakarastofan var lögð í rúst, allt brotið og bramlað.

„Þegar ég kom hingað höfðu rúðurnar verið brotnar, hurðin var brotin, allt hafði verið brotið og bramlað hérna inni. Ekki spyrja. Ég þoli þetta ekki," segir Aron.

Það er erfitt að skilja hvað fær fólk til hafa lifibrauðið af tæplega níræðum manni. Aron Biber er ekki ríkur maður. Rakarastofan var það eina sem hann átti.

„Ég hef klippt hár síðan ég var tólf ára. Það er líf mitt, líf mitt."

Nokkrir dagar eru síðan óeirðunum lauk en afleiðingarnar eru að koma betur í ljós. Fólki sem frétt af rakaranum í Tottenham vildi leggja sitt af mörkum. Og notuðu til þess, blogg , facebook og twitter. Og viðbrögðin létu ekki á sér standa.

Nú þegar hafa rúmar sex milljónir króna safnast. Rakarastofan mun opna aftur og það sem meira er, íbúar í Tottenham hafa sýnt að nokkrir óeirðarseggir hafa ekki brotið samstöðu borgaranna á bak aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×