Erlent

Rick Perry sækist eftir tilnefningu sem forsetaframbjóðandi

Rick Perry
Rick Perry
Spenna er að færast í forkosningar bandaríska repúblikanaflokksins eftir að ríkisstjóri Texas lýsti yfir framboði sínu. Tveir sigurstranglegustu frambjóðendurnir eru strangkristnir íhaldsmenn.

Rick Perry, ríkisstjóri Texas, tilkynnti í gær að hann muni sækjast eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins til forsetaembættis Bandaríkjanna í kosningunum 2012, en hann naut mikils stuðnings innan flokksins jafnvel áður en hann hóf kosningabaráttu sína.

Perry er strangkristinn íhaldsmaður, og hélt meðal annars stóran bænafund um síðustu helgi sem 30 þúsund manns sóttu, en hann hefur lagst gegn fóstureyðingum og auknum réttindum samkynhneigðra.

Í fyrstu opinberu framboðsræðu sinni léku trúmál þó hverfandi hlutverk. Þegar hann tilkynnti um framboðið réðst hann að efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar og sakaði ríkisstjórn Baracks Obama um að eyða arfi bandarískra barna í mislukkaðar örvunaraðgerðir, sem ekki hafi tekist að draga úr atvinnuleysi í landinu. Þá lagðist hann einnig gegn umbótum Baracks Obama á heilbrigðiskerfi bandaríkjanna.

Mörg ný störf hafa hins vegar orðið til í heimaríki Perrys, en talið er að hann muni keyra á þeim árangri í forkosningunum.

En þó trúarleg íhaldssemi hafi ekki verið í forgrunni hjá Perry fyrsta kastið verður annað sagt um frambjóðandann Michele Bachman, þingmanns úr Minnesota. Hún kemur best út úr skoðanakönnunum í Iowa, þar sem fyrstu forkosningar Repúblikanaflokksins fara fram. Hún nýtur mikils stuðnings innan teboðshreyfingarinnar, en talið er að Perry muni hrifsa hluta af því fylgi til sín.

Í ræðu hennar í ríkinu lagði hún áherslu á að hjónaband væri á milli karls og konu og klykkti út með að þakka guði fyrir fjölskylduna sem grunneiningu samfélagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×