Erlent

Bandarísk ofurlögga ráðleggur Bretum

Frá óeirðunum í miðborg Lundúna
Frá óeirðunum í miðborg Lundúna Mynd/AFP
Bresk yfirvöld hafa ráðið bandaríska ofurlöggu til að ráðleggja þeim í baráttunni við glæpagengi. Dómstólar hafa vart undan að afgreiða mál óeirðaseggja í landinu.

Bandaríski götuglæpasérfræðingurinn William Bratton er nú kominn í þjónustu breska ríkisins, en hann kemur til með að ráðleggja breskum yfirvöldum í baráttunni við glæpagengi eftir óeirðirnar í landinu síðustu daga.

Bratton er kallaður ofurlögga í breskum miðlum. Hann var áður lögreglustjóri í Los Angeles og tókst að draga þar verulega úr glæpum áður en hann tók við sem formaður rannsóknarfyrirtækisins Kroll, sem meðal annars hefur komið að rannsókn íslenska bankahrunsins.

Um sextán þúsund lögreglumenn eru nú á götum Lundúna, en það er margfalt lögreglulið á við það sem vanalega er. Stjórnvöldum var enda umhugað um að helgardrykkja breskra ungmenna myndi ekki kveikja aftur í púðurtunnu óeirðanna.

Hátt í tvöþúsund manns hafa verið handteknir í óeirðunum að því er erlendir fjölmiðlar greina frá, en dómstólar sátu að störfum í alla nótt til að fara með mál þess gífurlega fjölda sem braut af sér á meðan þeim stóð. Afbrotin eru af ýmsum toga, allt frá árásum til stuldar á vatnsflösku.

Meðal óeirðaseggjanna eru dóttir milljónamærings, hjálparstarfsmaður og háskólanemar, en flestir þeirra eru hins vegar atvinnulausir ungir menn.

Stjórnmálastéttin á undir högg að sækja í landinu eftir að óeirðirnar brutust út, en kannanir breskra dagblaða benda til þess að almenningur sé óánægður með viðbrögð forsætisráðherrans Davids Cameron, og þyki hann hafa stigið of seint fram.

Bresk stjórnvöld ætla að bregðast harkalega við óeirðunum. Meðal annarra umdeildra aðgerða er að bera óeirðaseggi sem búa í félagsíbúðum út, en fregnir hafa þegar borist af því að móðir átján ára óeirðaseggs verði borin út af heimili sínu vegna framferðis sonarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×