Erlent

Gallabuxnaauglýsing sem sýnir óeirðir tekin úr spilun í Bretlandi

Sjónvarpsauglýsing gallabuxnaframleiðandans Levi's hefur verið tekin úr spilun í Bretlandi. Ástæðan er sú að í auglýsingunni má sjá myndbrot sem þykja minna um of á óeirðirnar í Bretlandi, sem hafa leitt til handtöku um eitt þúsund og sex hundruð ungmenna á örfáum dögum.

Auglýsingin er hluti nýrrar herferðar Levi's sem talsmaður fyrirtækisins segir snúast um bjartsýni, jákvæðar gjörðir og anda frumkvöðulsins. Undir myndbrotunum heyrist ljóðið „Hið hlæjandi hjarta" eftir Charles Bukowski, en upphafsorðin mætti þýða á þennan veg: „Líf þitt er þitt líf / leyfðu engum að berja það niður í saggakenda undirgefni."

Í auglýsingunni má sjá ungmenni í þröngum gallabuxum taka þátt í kröfugöngum, nota reyksprengjur og ögra lögreglumönnum. Þá eru önnur myndbrot meira í anda hinna hefðbundnu gallabuxnaauglýsinga: Ástfangin ungmenni í faðmlögum, gallabuxnaklæddir gestir á næturklúbbum og náttúrubörn í Levi's gallabuxum, sem taka hafgolunni opnum örmum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×