Erlent

Sýrland: Hillary hvetur önnur ríki til að taka þátt í þvingunum

Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur biðlað til annarra ríkja um að taka þátt í viðskiptaþvingunum á Sýrlendinga. Í viðtali við CBS fréttastöðina beindi Hillary orðum sínum sérstaklega til Kínverja og Indverja en ríkin tvö hafa gert stóra olíusamninga við Sýrlendinga.

Orðrómur hefur verið uppi um að von væri á yfirlýsingu frá Bandaríkjastjórn þar sem Assad Sýrlandsforseti yrði hvattur til að segja af sér tafarlaust en Clinton segir að stjórnin vildi ekki gefa út slíka yfirlýsingu nema fá stuðning frá fleiri ríkjum fyrst. Mannréttindasamtök segja að 24 hafi látist hið minnsta í átökunum í Sýrlandi en talið er að allt að tvö þúsund hafi verið drepnir af stjórnarhermönnum frá því mótmælaaldan gegn Assad forseta hófst í Mars.

Assad fjölskyldan hefur stjórnað landinu í rúm fjörutíu ár. Bandaríkjamenn hafa hert á viðskiptaþvingunum sínum gegn Sýrlandi og hafa hótað því að herða þær enn frekar næstu á næstu dögum. Hillary sagði að áhrifaríkast væri þó að skrúfa fyrir olíukaupin og þar gegni Indverjar, Kínverjar og ríki í Evrópu stóru hlutverki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×