Erlent

Vorkennir árásarmönnunum

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Tvítugur nemi frá Malasíu, sem var rændur á götum úti eftir að hafa slasast í óeirðum í Lundúnaborg, segist vorkenna árásarmönnum sínum. Almenningur í Bretlandi er snortinn og hafa margir boðist til styrkja þennan ólánsama dreng.

Atvikið náðist á myndband og fór það eins og eldur í sinu um netheima. Mörgum ofbauð að sjá hvernig óeirðarseggirnir fóru með hinn ólánsama Ashraf Haziq og þykir myndbrotið sýna þá mannvonsku sem hefur ríkt á götum Lundúna og fleiri borga. Haziq steig fram í dag og kom mönnum í opna skjöldu þegar hann talaði um atburðinn. Hann virðist nefnilega ekki bera mikinn kala til árásarmannanna. „Ég vorkenni þeim. Ég er mjög leiður yfir þessu því þarna voru börn líka. Það var mjög sorglegt."

Haqiz hefur séð myndbandið af ráninu og segist sjálfur ekki trúa sínum eigin augum. Hann hefur talað við móður sína sem er skiljanlega mjög áhyggjufull. „Hún vill að ég fari aftur heim en ég neitaði því," segir Haziq og hlær.

Einn maður er nú í haldi lögreglu grunaður um að hafa rænt eigum Haqiz. Þessi malasíski nemi hefur svo sannarleg fengið að kynnast mannvonskunni í Bretlandi, en einnig góðmennskunni því margir hafa boðist til að fjármagna hann í kaupum á þeim hlutum sem var stolið. „Það er frábært. Þið eruð mjög örlát, í alvöru. Takk fyrir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×