Erlent

"Tróju-treyjum“ dreift til nýnasista

MYND/Exit Deutchland
Þýskir nýnasistar glöddust á dögunum þegar þeir mættu á rokkhátíð í Austur-Þýskalandi og fengu að gjöf forláta stuttermabol sem á var prentuð hauskúpa. Fyrir neðan myndina stóð "Hardcore - Rebellen" eða „Gallharðir uppreisnarmenn". Þetta féll tónleikagestum afar vel í geð og fengu færri bolina en vildu. Bolirnir voru hinsvegar þeim göldrum gæddir að þegar þeir fara í þvottavél koma dulin skilaboð í ljós. Skilaboðin eru frá samtökunum Exit sem einbeita sér að því að reyna að fá nýnasista í Þýskalandi til þess að snúa frá villu síns vegar.

„Þú getur gert það sem þessi bolur getur gert," stendur á bolnum eftir að búið er að þvo hann. Þar fyrir neðan er númerið á hjálparlínu sem samtökin starfrækja. Í samtali við AFP fréttastofuna segir Bernd Wagner, stofnandi Exit, að tilgangurinn með dreifingu bolanna hafi verið að kynna sig fyrir félögum í hægri öfgasamtökum í Þýskalandi. „Sérstaklega á meðal þeirra yngri sem enn eru ekki orðnir gallharðir í trúnni." Ekki fylgir sögunni hvort símtölum hafi fjölgað til hjálparlínunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×