Erlent

Segja son Gaddafís hafa flúið úr varðhaldi

Vígreifur Seif al-Islam í hópi stuðningsmanna sinna í gær.
Vígreifur Seif al-Islam í hópi stuðningsmanna sinna í gær. Mynd/ap
Sonur Múammars Gaddafís Líbíuleiðtoga er ekki í haldi uppreisnarmanna eins og fullyrt var í gær. Harðir bardagar geisa nú við aðsetur Gaddafís í Trípólí. Í gær leit út fyrir að uppreisnarmenn væru við það að bera sigurorð af Gaddafí og binda þar með enda á rúmlega fjögurra áratuga einræðisstjórn hans.

Staðan í dag er hinsvegar enn tvísýn og Seif Al-Islam sonur leiðtogans birtist öllum að óvörum í gærkvöldi og ávarpaði stuðningsmenn sína og erlenda blaðamenn við Rixos hótelið. Bráðabirgðastjórnin fullyrti í gær að Seif væri í varðhaldi og að sama væri að segja um tvo bræður hans. Þetta var síðan staðfest af saksóknara hjá alþjóðaglæpadómstólnum en dómstóllinn hefur gefið út handtökuskipun á hendur Seif og föður hans. Málið er mjög óljóst en nú er haft eftir forsvarmanni bráðabirgðarstjórnar uppreisnarmanna að Seif hafi flúið úr varðhaldi.

Seif, sem talinn var líklegur arftaki Gaddafís á valdastóli, segir að uppreisnarmenn hafi gengið í gildru með því að ráðast til atlögu í Trípólí og stjórnarherinn hafi nú brotið baráttuþrek þeirra á bak aftur. Í dag hafa þó borist fregnir af hörðum bardaga við höfuðstöðvar Gaddafís í borginni en ekkert er vitað um hvar Gaddafí sjálfur heldur sig. Að minnsta kosti tveir hafa látist í bardaganum í dag og hafa talsmenn Rauða krossins í borginni miklar áhyggjur af því að tala látinna og særða muni hækka þegar líður á daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×