Erlent

Rússlandsforseti segir nauðsynlegt að auka flugöryggi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dmitry Medvedev segir nauðsynlegt að auka flugöryggi. Mynd/ AFP.
Dmitry Medvedev segir nauðsynlegt að auka flugöryggi. Mynd/ AFP.
Auka þarf flugöryggi í Rússlandi, sagði Dmitry Medvedev, forseti landsins, eftir að hann skoðaði slysstað þar sem 43 manns létu lífið í flugslysi í Jaroslavl í gær. Í flugslysinu fórust margir af fræknustu hokkýmönnum í heiminum.

Forsetinn sagði að Rússar hefðu upplifað of mörg flugslys og það væri ekki hægt að loka augunum fyrir þeim atburðum. „Við getum ekki haldið svona áfram,“ sagði forsetinn. Hann sagði að flugslysið í gær myndi ef til vill hafa í för með sér að Rússar myndu fara að nota útlenskar flugvélar. Vélin sem fórst í gær var aftur á móti af gerðinni Yak-42 og er framleidd í Rússlandi.

„Mannslíf er meira virði en nokkuð annað. Ég mun gefa ríkisstjórninni fyrirskipanir og síðan verðum við að finna peningana. Þetta verður forgangsverkefni,“ sagði Medvedev, samkvæmt frásögn Ritzau fréttastofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×