Erlent

Níger mun ekki loka á Gaddafi

JHH skrifar
Gaddafi fær hugsanlega skjól í Níger.
Gaddafi fær hugsanlega skjól í Níger. Mynd/ afp.
Utanríkisráðherra Níger segir að ekki verði hægt að loka landamærum Líbíu og koma þannig í veg fyrir að Muammar Gaddafi, fyrrverandi leiðtogi Líbíu, flýi yfir þau.

Mohamed Bazoum utanríkisráðherra sagði í samtali við BBC fréttastöðina að Gaddafi hefði hvorki farið yfir landamærin, né heldur beðið um leyfi til að fá að fara yfir. Hann sagði að stuðningsmenn Gaddafis sem hefðu farið yfir landamærin og væru komin til höfuðborgarinnar Niamey, mættu dvelja þar áfram eða halda áfram för sinni.

Leiðtogar uppreisnarmanna í Líbíu segja að þeir hafi verið í sambandi við stjórnvöld í Níger og óskað eftir því að þau myndu hjálpa þeim að koma í veg fyrir að Gaddafi myndi flýja. En Bazoum utanríkisráðherra segir að ekki standi til að loka landamærunum. Þau séu of stór til þess að það sé hægt og hvatinn til þess sé afskaplega lítill. Hann sagðist vona að Gaddafi kæmi ekki yfir landamærin, en engin ákvörðun hefði verið tekin um það hvernig yrði brugðist við ef hann gerði það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×