Erlent

45 milljónir Bandaríkjamanna reykja

mynd úr safni
Um 20 prósent Bandaríkjamanna reykja, samkvæmt nýrri rannsókn sem birt var á dögunum í tímaritinu Morbidity and mortality. Reykingamönnum hefur fækkað lítillega á síðustu fimm árum.

Samkvæmt rannsókninni sem birtist í tímaritinu Morbidity & Mortality Weekly Report fækkaði reykingarmönnum úr tæplega tuttugu og einu prósenti á árinu tvö þúsund og fimm í nítján komma þrjú prósent í fyrra.

Þetta þýðir að reykingarmönnum í Bandaríkjunum hefur fækkað um þrjár milljónir á þessum tíma.

Enn eru þó um fjörutíu og fimm milljónir Bandaríkjamanna sem reykja.

Thomas Frieden, læknir og einn þeirra sem stóðu að rannsókninni, segir að reykingamönnum hafi fækkað meira á síðustu fimm árunum þar á undan. Það hljóti því að vera hægt að gera betur í barátunni gegn fíkninni.

Hann segir að stórreykingarmönnum hafi fækkað verulega. Þeim sem reyki 30 sígarettur á dag eða meira hafi fækkað úr tólf komma sjö prósent árið tvö þúsund og fimm í rúm átta prósent árið tvö þúsund og tíu. Þeim sem reykja eina til níu sígarettur á dag fjjölgaði hins vegar úr rúmum sextán prósent í tæp tuttugu og tvö prósent.

Aðstandendur rannsóknarinnar segja að reykingar valdi skaða í öllum tilvikum. Jafnvel þótt fólk reyki aðeins stöku sinnum. Það eina rétta í stöðunni sé því að hætta þeim alveg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×