Erlent

Uppreisnarsveitir þrengja að Gaddafí

Uppreisnarmaður forðar sér undan skotum frá leyniskyttu á götum Savíja.
Uppreisnarmaður forðar sér undan skotum frá leyniskyttu á götum Savíja. nordicphotos/AFP
Hörð átök brutust út í gær milli uppreisnarmanna og liðsveita Múammars Gaddafí í borginni Savíja, þar sem þeir börðust um yfirráð einu starfhæfu olíuhreinsistöðvar landsins.

Savíja er skammt frá höfuðborginni Trípolí og sögðust uppreisnarmenn hafa náð að loka fyrir allt streymi olíu og gass til höfuðborgarinnar, þar sem Gaddafí hefst við ásamt helstu stuðningsmönnum sínum.

Á laugardaginn var tókst uppreisnarmönnum að komast inn í Savíja úr bækistöðvum sínum í fjallahéruðunum vestan til í landinu og hafa síðan smám saman fikrað sig lengra inn í borgina.

Þeir hafa veginn á milli Savíja og Trípolí á sínu valdi, og hafa því þrengt verulega að Gaddafí sem á nú erfitt með að fá bæði olíu, gas og aðrar nauðsynjar fluttar til höfuðborgarinnar.

Þeir herja nú að höfuðborginni bæði úr vestri og suðri auk þess sem hersveitir NATO ráða lögum og lofum á hafinu fyrir norðan Trípolí, sem er á strönd Miðjarðarhafsins.

Uppreisnarmenn ráða að mestu yfir austurhluta landsins og hafa stofnað bráðabirgðastjórn í borginni Bengasí, þar sem uppreisnin hófst fyrir fimm mánuðum.

Þeir eru vongóðir og segja aðeins fáeinar vikur í að Gaddafí-stjórnin falli. Leon Panetta, nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segist einnig telja að dagar Gaddafís séu brátt taldir.

Gaddafí og liðsmönnum hans hefur engu að síður tekist að verjast falli mánuðum saman, mun lengur en bjartsýnustu raddir reiknuðu með þegar leiðtogar NATO-ríkjanna ákváðu að blanda sér í átökin seint í mars með loftárásum.

Átökin um olíuhreinstöðina í Savíja hófust á þriðjudag, en strax á laugardag – eftir að uppreisnarmenn réðust fyrst inn í borgina – hófust viðræður þeirra við hermenn Gaddafís, sem eru í olíuhreinsistöðinni til að verja hana.

Sumir þeirra gáfust upp á þriðjudag, flestir heimamenn í Savíja. Margir almennra starfsmanna stöðvarinnar fóru þaðan strax á fyrstu vikum borgarastríðsins, sem hófst um miðjan febrúar.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×