Innlent

Tveir af þremur vilja halda ESB-umsóknarferli áfram

Könnun Nærri tveir af hverjum þremur landsmönnum vilja að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði lokið og samningur lagður í þjóðaratkvæðagreiðslu, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins. Rúmur þriðjungur vill að umsóknin verði dregin til baka.

Heldur hefur fjölgað í hópi þeirra sem vilja ljúka viðræðum við ESB frá því Fréttablaðið kannaði síðast afstöðu fólks í september í fyrra.

Nú vilja 65,4 prósent ljúka viðræðunum en 64,2 prósent voru þeirrar skoðunar í september. Um 34,6 prósent vilja draga umsóknina til baka, samanborið við 35,8 prósent í september í fyrra.

Í könnuninni sem gerð var í september virtist sem talsverður viðsnúningur hafi orðið þegar niðurstöðurnar voru bornar saman við könnun sem MMR gerði fyrir vefsíðuna Andríki í júní í fyrra.

Samkvæmt könnun MMR vildu þá 57,6 prósent landsmanna draga aðildarumsóknina til baka. Könnun Fréttablaðsins í september mældi mikla breytingu á afstöðu fólks. Afstaðan virðist lítið hafa breyst síðan.

Aukinn stuðningur er meðal stuðningsmanna allra flokka við að ljúka aðildarviðræðunum. Aðeins meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vildu fleiri draga umsóknina til baka en ljúka viðræðunum. Um 50,9 prósent vildu stöðva viðræðurnar en 49,1 prósent ljúka viðræðunum.

Stuðningur við að ljúka viðræðunum er mestur innan Sam­fylkingar­innar. Innan samstarfs­flokksins í ríkisstjórn, Vinstri grænna, vilja nú 67,2 ljúka við­ræðunum, 3,6 prósentustigum fleiri en í september.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×