Innlent

Kenna hryðjuverkamönnum frá Kákasus um sprengingu í Moskvu

Tugir létust í hryðjuverkaárás á Domo-dedovo, fjölfarnasta flugvelli Moskvu í dag. Talið er að hryðjuverkasamtök frá Kákasus-svæðinu standi fyrir árásinni.

Tala látinna hækkar stöðugt en síðustu fréttir herma að 35 hafi látist og rúmlega eitt hundrað og þrjátíu særðust eftir sprenginguna sem rússneskir miðlar telja vera sjálfsvígsárás. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur ekki borist tilkynning um að Íslendingar séu meðal þeirra særðu.

Domodedovo flugvöllur er staðsettur rúmum fjörtíu kílómetrum suðaustan við Moskvu en sprengjan sprakk á komusvæði millilandafarþega.

Rússnesk yfirvöld telja að u.þ.b. sjö kíló af sprengiefni hafa verið sprengd en mikill reykmökkur var inni í flugstöðinni þegar tugir sjúkrabíla komu á vettvang. Yfirmaður opinberrar rannsóknarnefndar rússnesku lögreglunnar sagði í viðtali við fjölmiðla í dag að hryðjuverkasamtök væru ábyrg fyrir árásinni en samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins, BBC, beinist rannsóknin að hryðjuverkasamtökum á Kákasus svæðinu.

Dimitri Medvedev Rússlandsforseti hefur heitið því að rússnesk yfirvöld klófesti höfuðpaura samtakanna en hann boðaði helstu ráðamenn þjóðarinnar á neyðarfund í dag og jók öryggisgæslu á helstu samgöngumiðstöðvum umhverfis Moskvu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×