Erlent

Óeirðir í London: Skildu scart-tengin eftir

Hart var barist í Lundúnum í gær aðra nóttina í röð. Lögregluhundar voru óspart notaðir til þess að elta uppi þjófagengi sem fóru hamförum í höfuðborginni.

Það var nokkuð ljóst að fólkið sem fór hamförum í Lundúnum síðastliðna nótt var ekki að hugsa um Mark Duggan, en dauði hans við handtöku var notaður sem átylla fyrir óeirðunum í Tottenham á laugardagskvöld. Fjölskylda Duggans segist auðvitað vilja fá svör við því af hverju hann var skotinn til bana, en fordæmir jafnframt óeirðirnar og ofbeldið.

Fólk kom saman á þónokkrum stöðum í gær, meðal annars í Oxford Circus einu helsta verslunarhverfinu í hjarta Lundúna. Þar var brotist inn í verslanir og ljóst að þjófarnir vildu vanda valið. Breskur blaðamaður sagði á Twitter að múrsteinar og skart-tengi lægju eins og hráviður um allar götur. Scart-tengi eru ekki lengur notuð á sjónvörp því nú eru allir í háskerpunni. Þjófarnir hafa því losað sig við þann óþarfa.

Lögreglan beitti óspart hundum sínum til þess að hlaupa uppi og skella búðaþjófum. Þeir voru svo dregnir um borð í flutningabíla sem færðu þá í fangelsi. Yfir 160 manns voru handteknir um helgina og 35 lögreglumenn eru sárir eftir slagsmálin.

Foringi í lögreglunni sagði að óeirðaseggirnir væru tækifærissinnar sem ættu sér eingan málstað. Þeir vildu aðeins koma af stað óeirðum og stela sér verðmætum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×