Enski boltinn

Arsenal sigraði Blackpool 3-1 - Lehmann stóð vaktina

Stefán Árni Pálsson skrifar
Leikmenn Arsenal fagna í dag.
Leikmenn Arsenal fagna í dag.
Arsenal vann í dag mikilvægan sigur, 3-1, gegn Blackpool í ensku úrvalsdeildinni. Jens Lehmann var í markinu hjá Arsenal en þessi margreyndi þýski markvörður samdi á ný við Arsenal fyrir stuttu.

 

Arsenal náði með sigrinum að færast nær Manchester United en eftir leikinn munar sjö stigum stigum á liðunum. Arsenal er í öðru sæti deildarinnar en eiga einn leik til góða á toppliðið frá Manchester.

 

Abu Diaby kom Arsenal yfir á 18. mínútu leiksins eftir frábæra fyrirgjöf frá Robin van Persie. Aðeins þremur mínútum síðar skoruðu gestirnir annað mark en þá var á ferðinni bakvörðurinn Emmanuel Eboué. Jack Wilshere, leikmaður Arsenal, átti frábæra stungusendingu inn fyrir vörn Blackpool beint á Eboué sem renndi boltanum auðveldlega framhjá Richard Kingson í markinu.

 

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks komst Samir Nasri í algjört dauðafæri, en skot hans fór í stöng.

 

Heimamenn í Blackpool hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti en það tók þá aðeins fimm mínútur að minnka muninn.

 

Gary Taylor-Fletcher skoraði fyrir Blackpool, en rétt áður hafði Lehmann brotið á leikmanni Blackpool og spurning var hvort hann hefði átt að fjúka útaf. Fletcher náði frákastinu og renndi boltanum í netið.

 

Arsenal gull tryggði sigurinn á 76. mínútu þegar Robin van Persie skoraði eftir frábæran undirbúning frá Theo Walcott.

 

Arsenal er því í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 62 stig, 7 stigum á eftir Manchester United, en Arsenl hefur leikið einum leik minna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×