Innlent

Hefur efasemdir um stofnun atvinnuvegaráðuneytis

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur efasemdir um stofnun atvinnuvegaráðuneytis. Mynd/ Pjetur.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur efasemdir um stofnun atvinnuvegaráðuneytis. Mynd/ Pjetur.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er efins um að rétt sé að gera frekari breytingar á stjórnsýslunni. Sameining sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis annars vegar og iðnaðarráðuneytis hins vegar hefur verið fyrirhuguð frá því að vinstristjórnin tók við völdum fyrir um tveimur árum síðan. Þegar hafa fjögur ráðuneyti verið sameinuð í velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti.

„Ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta sé ekki brýnasta verkefnið," sagði Ögmundur í samtali við Sigurjón Egilsson á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Ögmundur segir að skiptar skoðanir séu á breytingum innan VG. „Það eru margir innan okkar raða sem eru fylgismenn þessara breytinga," segir Ögmundur. Hann bendir á að sú hugmynd að gefa umhverfismálum aukið vægi í sérstöku auðlindaráðuneyti njóti mikils stuðnings. Ögmundur segir hins vegar að breytingar á stjórnkerfinu séu flóknar og tengist umsóknarferlinu að Evrópusambandinu.

Ögmundur segir að margir innan stjórnarliðsins vilji losna við Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, úr embættinu. Hann sé ekki sammála því og telur að Jón Bjarnason hafi gert margt gott í sínu ráðuneyti.

Ögmundur segir um ágreininginn innan VG að þótt deilt sé um ýmis mál séu önnur mál sem flokksmenn séu fullkomlega sammála um. „Við erum fullkomlega sammála um að fara hér í jafnara og réttlátara skattkerfi til dæmis," segir Ögmundur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×