Innlent

Nýr formaður Stúdentaráðs kjörinn í dag

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Búist er við því að Lilja Dögg Jónsdóttir verði kjörinn formaður Stúdentaráðs í dag.
Búist er við því að Lilja Dögg Jónsdóttir verði kjörinn formaður Stúdentaráðs í dag.
Lilja Dögg Jónsdóttir var kjörin oddviti Vöku á þriðjudag og mun væntanlega verða kjörin formaður Stúdentaráðs á skiptafundi þess sem fram fer í dag. Vaka vann hreinan meirihluta í stúdentaráðskosningum fyrir viku.

Þegar Lilja er spurð að því hvaða verkefni liggi fyrir á næstunni nefnir hún helst eitt mál. „Við tökum væntanlega til við að vinna að þessum breytingum sem við lögðum til á Stúdentaráði. Og við eigum eftir að þróa hana betur og vonandi tekst okkur að keyra þetta í gegn fyrir næstu kosningar eða á þessu starfsári," segir Lilja í samtali við Vísi.

Háskóla Íslands var fyrir skemmstu skipt niður í fimm fræðasvið. Lilja segir að nú séu í raun um fimm háskóla að ræða og því sé hugmyndin að skipta stúdentaráði niður á fræðasviðin. „Þar sem sitja nemendur af hverju fræðasviði sem þekkja betur til hvað er í gangi þar og hvar helstu málin eru sem þarf að bæta. Síðan væri bara eitt sameiginlegt Stúdentaráð með jafn mörgum fulltrúum og eru núna sem tekst á við mál eins og LÍN málin og svona mál sem allir eiga sameiginlegt," segir Lilja.

Lilja nefnir jafnframt LÍN málin sem skipi alltaf stóran sess í hagsmunabaráttu stúdenta, auk fyrirkomulags upptökuprófa og sjúkraprófa. „Og allur þessi niðurskurður í Háskólanum. Við þurfum væntanlega að taka þátt í því öllu saman og sjá til þess að það komi ekki niður á gæði námsins eða aðstöðu nemenda," segir Lilja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×