Innlent

RIFF bíður eftir ríkisstyrk

Jim Jarmusch fékk heiðursverðlaun RIFF á hátíðinni í haust og afhenti Ólafur Ragnar Grímsson þau á Bessastöðum. Mynd/Stefán
Jim Jarmusch fékk heiðursverðlaun RIFF á hátíðinni í haust og afhenti Ólafur Ragnar Grímsson þau á Bessastöðum. Mynd/Stefán
„Þetta er bara bull. Hún er ekki búin að slátra hátíðinni," segir Hrönn Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF.

Ritstjórinn fyrrverandi og bloggarinn Jónas Kristjánsson skrifaði á síðu sinni að hátíðin yrði ekki haldin á þessu ári og að Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hefði slátrað henni með því að undirrita ekki meðmælabréf með styrkbeiðni til Evrópusambandsins.

Hrönn vísar þessu á bug og segir að hátíðin verði haldin í haust. RIFF hefur þegar fengið vilyrði hjá Reykjavíkurborg fyrir átta milljón króna styrk eins og undanfarin ár.

Ríkið hefur einnig samþykkt að styrkja hátíðina áfram en ekki er ljóst hversu há upphæðin verður. Á síðasta ári nam styrkurinn átta milljónum króna. Viðræðurnar við ríkið hafa tekið töluverðan tíma en málið mun skýrast á allra næstu dögum.

Hrönn segir að hátíðin verði haldin í ár. Mynd/Stefán
RIFF hefur einnig sótt um svokallaðan Media-styrk til Evrópusambandins og fær svar við beiðninni í febrúar. Hátíðin hefur einu sinni fengið Media-styrk, eða árið 2009, og nam hann sex og hálfri milljón.

Hrönn segir umfang næstu RIFF-hátíðar, sem verður sú áttunda í röðinni, ráðast af því hversu háa styrki hún fær.

„Grunnur­inn undir starfseminni hefur verið þessi styrkur frá Reykjavíkurborg og menntamálaráðuneytinu. Við bindum miklar vonir við að fá áfram svipaða upphæð. Ég er bjartsýn á að ráðherra taki skynsamlega ákvörðun í þessu máli," segir hún og fullyrðir að peningur­inn sem hafi verið lagður í hátíðina komi allur til baka og rúmlega það. - fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×