Erlent

Obama skýtur fast á þingið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Obama segir að efnahagsvandræðin í dag séu að mörgu leyti vegna utanaðkomandi aðstæðna. Mynd/ AFP.
Obama segir að efnahagsvandræðin í dag séu að mörgu leyti vegna utanaðkomandi aðstæðna. Mynd/ AFP.
„Sumar af þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í dag eru vegna atburða sem við höfum ekki haft neina stjórn á," sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, í ræðu í dag.

Hann benti á að hagkerfið hefði verið að batna á árunum 2009 og 2010. Svo í byrjun þessa árs hafi orðið aukinn órói í Mið-Austurlöndum. Það hafi valdið því að olíuverð hafi rokið upp úr öllu valdi. Evrópa hafi svo verið að glíma við alls kyns vanda sem lendi á herðum Bandaríkjamanna. „Hinn hörmulegi jarðskjálfti í Japan skaðaði hagkerfi víða um heim. Þar á meðal okkar," sagði Obama. Allt fyrrnefnt hafi haft áhrif á bandarískt hagkerfi og hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum. „Þetta vekur upp streitu hjá fólki og hefur áhrif á sparnað fólks, alls staðar í Bandaríkjunum," sagði Obama.

„Áskoranir eins og þessar, jarðskjálftar og byltingar, eru eitthvað sem við getum ekki stjórnað. Við getum hins vegar stjórnað viðbrögðum okkar við þessum áskorunum," sagði Obama. Hann sagði að viðbrögðin í stjórnkerfinu hefðu ekki verið nógu góð. Viðbrögð stjórnmálamanna hefðu ekki verið nógu góð. „Það er ekkert rangt við landið okkar. Það er hins vegar eitthvað mjög rangt við pólitíkina. Við höfum ekki efni á því að leika einhverja leiki - ekki núna þegar svo mikið er í húfi í hagkerfinu okkar," sagði Obama.

Á máli forsetans mátti skilja að þingið bæri fyrst og fremst ábyrgðina. „Ef þið eruð sammála mér þá verðið þið að láta þingið vita. Þið verðið að segja þeim að þið hafir fengið nóg af þessum leikaraskap. Þið hafið fengið nóg af þessari pólitík. Segið þeim að hætta að senda okkur fréttatilkynningar byrja að semja lagafrumvörp sem munu hjálpa hagkerfinu okkar," sagði Obama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×