Erlent

Enn logar London - óöldin breiðist út

Þriðju nóttina í röð loguðu eldar í Lundúnum og heimili og fyrirtæki voru eyðilögð í mestu óeirðum í borginni í áraraðir.

Óöldin virðist vera að breiðast út um landið því í nótt kom einnig til átaka á milli lögreglu og óeirðaseggja í Birmingham, Bristol og í Liverpool, auk Lundúna. Tæplega fjögurhundruð hafa verið handteknir frá því ólætin hófust síðastliðið laugardagskvöld og í nótt voru þrír handteknir í London grunaðir um að hafa reynt að myrða lögreglumenn en ekið var á mennina á fullri ferð.

David Cameron forsætisráðherra hefur setið undir gagnrýni sökum þess að hann hefur verið í fríi á Ítalíu á meðan óöldin hefur geisað en hann er nú á leið heim til þess að funda um næstu skref í baráttunni við óeirðaseggina sem hafa kveikt í verslunum og fyrirtækjum og farið um rænandi og ruplandi. Í gær var hundrað ára gömul húsgagnaverslun sem verið hefur í eigu sömu fjölskyldunnar í fimm ættliði brennd til grunna. Lögreglan hefur þurft að notast við brynvarða bíla til þess að hemja lýðinn en um sautján hundruð lögreglumenn hafa staðið vaktina í London síðustu daga.

Tveimur fótboltaleikjum sem fara áttu fram í borginni í dag hefur verið frestað og svo gæti farið að vináttulandsleik Englendinga gegn Hollendingum á morgun verði einnig frestað.

Á þessu korti má sjá hvar átök hafa blossað upp í höfuðborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×