Innlent

Jón Steinar víkur sæti í stjórnlagaþingsmálinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Steinar Gunnlaugsson verður ekki á meðal dómenda þegar krafan um endurupptöku verður tekin fyrir. Mynd/ GVA.
Jón Steinar Gunnlaugsson verður ekki á meðal dómenda þegar krafan um endurupptöku verður tekin fyrir. Mynd/ GVA.
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari mun víkja sæti þegar Hæstiréttur tekur afstöðu til endurupptöku á stjórnlagaþingsmálinu svokallaða. Gísli Tryggvason, sem krefst endurupptöku á málinu, staðfestir þetta. Gísli Tryggvason fór fram á að Jón Steinar yrði úrskurðaður vanhæfur vegna málsins og eftir það sendi Jón Steinar fram beiðni um að hann fengi að víkja sæti. Aðrir dómarar samþykktu svo beiðnina.

„Við mig var rætt í sjónvarpsþætti þar sem þetta mál bar meðal annars á góma. Þar vísaði ég nær eingöngu til forsendna ákvörðunarinnar sem birtar voru með henni. Allt að einu má finna ummæli sem ganga eilítið lengra en þar kemur fram einkum þegar ég hafði orð á því að Hæstiréttur hefði ekki haft neinar aðferðir til að mæla áhrif þess á úrslit kosninganna að ekki var fylgt lagareglum við framkvæmd þeirra," segir Jón Steinar í erindi sem hann sendi meðdómendum sínum.

Með hliðsjón af þessu og í því skyni að koma á móts við beiðanda, sem telji ummælin í sjónvarpsþættinum Návígi hafa dregið úr trúverðugleika Jóns Steinars til að fjalla um beiðni Gísla, hafi Jón Steinar ákveðið að óska eftir að víkja sæti við meðferð hennar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×