Viðskipti erlent

Ekkert lát á verðhækkunum á kaffibaunum

Ekkert lát er á verðhækkunum á kaffibaunum á hrávörumörkuðum heimsins. Verðið hefur nær tvöfaldast á liðnu ári og ekki er útlit fyrir annað en að verðið eigi enn eftir að hækka töluvert.

Fjallað er um málið á brösen.dk. Þar kemur fram að danskir kaffineytendur hafi orðið verulega fyrir barðinu á þessum hækkunum. Þannig kostaði poki af Merril kaffi um 30 krónur danskar út úr búð í Kaupmannahöfn fyrir ári síðan. Nú stefnir þetta verð hraðbyri í 60 krónur danskar. Útsöluverð á þessum kaffipoka er þegar komið í 43 krónur danskar.

Rætt er við Michael Svendsen innkaupastjóra hjá Dansk Supermarked en hann segir að á síðasta ári hafi þeir neyðst til þess að hækka verð á kaffi um allt að 40%. Svendsen reiknar með áframhaldandi verðhækkunum.

„Staðan á mörkuðunum er verulega villt,“ segir Svendsen. „Við erum neyddir til þess að velta verðhækkunum út í verðlagið til neytenda. Það verður spennandi að sjá hvar þetta endar. En í augnablikinu verðum við ekki vör við samdrátt í kaffisölunni þrátt fyrir verðhækkanir.“

Börsen nefnir að þær tvær tegundir af kaffibaunum, sem eru ráðandi á markaðinum, Robusta og Arabica hafi báðar hækkað um yfir 80% á liðnu ári. Samkvæmt sérfræðingum er reiknað með að verðið muni hækka um a.m.k. 23% í viðbót á næstunni.

Ástæðan fyrir skorti á kaffibaunum er uppskerubrestur víða í heiminum og mikill áhugi spákaupmanna á ýmissi hrávöru. Í ár eykur svo hefðbundin niðursveifla á framboðinu frá Brasilíu á vandann en Brasilíumenn hvíla ákveðinn hluta af kaffibaunaökrum sínum annað hvert ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×