Erlent

Flugfélög fljúga frítt með hjálpargögn til Afríku

Á fyrstu tólf dögum ágústmánaðar hafa 26 birgðaflutningavélar flogið með 531 tonn af hjálpargögnum frá UNICEF til þurrkasvæðanna á austurodda Afríku. Megináhersla hefur verið lögð á að senda næringarbætt hnetumauk fyrir alvarlega vannærð börn ásamt næringarbættu maís- og sojamjöli sem gera má úr graut.

Flutningur nær helmings þeirra birgða sem sendar hafa verið í ágúst hefur verið UNICEF að kostnaðarlausu. Flugfélögin Virgin Airlines, Cargolux og British Airways hafa öll gefið samtökunum birgðaflug.

Meðal þeirra hjálpargagna sem hafa borist á svæðið á umræddu tímabili eru 170 tonn af næringarbættu hnetumauki, 172 tonn af maís- og sojamjölsblöndu, 21 tonn af orkuríkum kornstöngum og 37 tonn af mikilvægum lyfjum og saltupplausn til að koma í veg fyrir ofþornun. Einnig hafa verið send á vettvang tæki sem notuð eru til að að hreinsa vatn og gera það hæft til drykkju, tæplega 5 milljónir skammtar af  bóluefni gegn mislingum, mænuveiki, stífkrampa, barnaveiki og kíghósta; auk segldúka, tjalda, vatnshreinsitaflna og fleira.

UNICEF sendir hjálpargögn alla jafna með skipum. Ástandið er hins vegar svo alvarlegt að þörf er á hraðari flutningsmáta til að brúa bilið þangað til skipsfarmar taka að berast reglulega, þ.e. á næstu vikum.

Áframhaldandi þörf

Þessi hjálpargögn bætast við þau 1.300 tonn sem dreift var í suðurhluta Sómalíu í síðasta mánuði. Þá hefur miklu magni hjálpargagna einnig verið dreift í öðrum hlutum landsins sem og í Eþíópíu, Keníu og Djibútí.

UNICEF áætlar að á næstu sex mánuðum, hið minnsta, þurfi samtökin að senda á vettvang 5.000 tonn af næringabættri fæðu fyrir vannærð börn í hverjum mánuði.

Íslendingar hafa verið ötulir við að styrkja neyðaraðgerðir UNICEF í Austur-Afríku. Enn er hægt að leggja söfnuninni lið með því að hringja í söfnunarsímnúmerin 908-1000 (1.000 krónur), 908-3000 (3.000 krónur) og 908-5000 (5.000 krónur). Einnig er hægt að leggja inn á sérstakan söfnunarreikning: 515-26-102040 (kt. 481203-2950)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×