Innlent

Óvissa um frekari lækkun bensínverðs

Dropinn lækkar Eldsneytisverð hefur lækkað að undanförnu í samræmi við olíuverð á heimsmarkaði. Fréttablaðið/gva
Dropinn lækkar Eldsneytisverð hefur lækkað að undanförnu í samræmi við olíuverð á heimsmarkaði. Fréttablaðið/gva
Verð á eldsneyti lækkaði um þrjár krónur á flestum útsölustöðum í gær og fyrradag, en þessar lækkanir eru í samræmi við sviptingar á heimsmarkaðsverði síðustu daga.

Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði um tíu prósent á fimmtudag og verð á bensíni lækkaði um fjögur prósent. Lækkunin gekk lítillega til baka í gær, en óvissa er um framhaldið bæði hérlendis og erlendis.

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, segir í samtali við Fréttablaðið að lækkunin á heimsmarkaði hafi verið nokkuð fyrirséð en þó kærkomin. „En ég reikna ekki með frekari lækkunum í byrjun næstu viku, nema ef vera skyldi af samkeppnisástæðum ef aðrir lækka sitt verð.“

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bíleigenda, tekur undir það að lækkunin hafi verið langþráð og þetta séu góðar fréttir fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

„Þetta eru ánægjulegri tíðindi en oft áður. Þetta voru hressileg viðbrögð og í anda þess sem að við höfum verið að sjá á heimsmarkaðsverði og vonandi heldur það áfram.“

Runólfur segir að erfitt sé að segja til um framhaldið, en þó séu þessar lækkanir úr takti við fyrri ár því að venjulega fari verð að hækka þegar líði að sumri og ferðalög aukist. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×