Innlent

Iceland Express seinkar flugi vegna veðurs

Brottför véla Iceland Express til London og Kaupmannahafnar í fyrramálið hefur verið seinkað um klukkustund vegna spár um ofsaveður á Suðurnesjum. Vélarnar áttu báðar að fara klukkan 7, en fara þess í stað klukkan 8. Þessar seinkanir eru líklegar til þess að hafa áhrif á komutíma vélanna síðdegis, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.

Farþegar eru hvattir til að fylgjast með upplýsingum um komu- og brottfarartíma á Keflavíkurflugvelli.

Fyrr í kvöld barst fréttatilkynning frá Icelandair sem hefur ákveðið að seinka öllu flugi í fyrramálið til klukkan 9 vegna veðurspárinnar. Um er að ræða flug til borganna Osló, Stokkhólms, Kaupmannahafnar, London, Manchester/Glasgow, Amsterdam og Parísar. Þá má sömuleiðis gera ráð fyrir seinkun á fluginu frá New York, Seattle og Boston til landsins í fyrramálið af sömu ástæðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×