Erlent

Laus úr gíslingu sjóræningja

Jan Quist-Johansen Var á heimsreisu ásamt fjölskyldu sinni þegar skúta þeirra varð fyrir árás sjóræningja í febrúar síðastliðnum.fréttablaðið/AP
Jan Quist-Johansen Var á heimsreisu ásamt fjölskyldu sinni þegar skúta þeirra varð fyrir árás sjóræningja í febrúar síðastliðnum.fréttablaðið/AP
Sjö manna áhöfn danskrar skútu er laus úr haldi sómalískra sjóræningja, sem réðust um borð í skútu fjölskyldunnar seint í febrúar.

Langar samningaviðræður um lausnargjald skiluðu samkomulagi í vor, en það var ekki fyrr en í vikunni sem þau voru látin laus.

Danska utanríkisráðuneytið sendi í gær frá sér tilkynningu þar sem segir að Danirnir sjö séu komnir í öruggt skjól. Þau hafi það eftir atvikum gott og séu á leiðinni heim til Danmerkur.

Um borð í skútunni voru hjónin Jan Quist-Johansen og Birgit Marie ásamt þremur börnum þeirra á unglingsaldri og tveimur öðrum í áhöfn.

Fjölskyldan hélt úr höfn í ágúst árið 2009 og hugðist verja tveimur árum til að sigla umhverfis jörðina.

Þrátt fyrir að hafa vitað af þeirri hættu, sem stafar af sómalískum sjóræningjum, ákváðu þau í febrúar að taka stefnuna yfir Indlandshaf og þar með beint í fangið á ræningjunum.

Enn eru sex sjómenn af dönsku flutningaskipi í haldi sómalískra sjóræningja. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×