Erlent

Eyðir 3.500 óbirtum leyniskjölum

Julian Assange birti grein á heimasíðu sinni þar sem hann gagnrýnir Domscheit-Berg mjög.
Julian Assange birti grein á heimasíðu sinni þar sem hann gagnrýnir Domscheit-Berg mjög. Mynd/AP
Fyrrverandi starfsmaður Wikileaks, Daniel Domscheit-Berg, hefur eytt 3.500 leyniskjölum sem lekið var til síðunnar Wikileaks. Þetta sagði hann í samtali við þýska fjölmiðilinn Der Spiegel, en skjölin munu m. a. hafa innihaldið 5 gígabæt af upplýsingum um Bank of America.

Domscheit-Berg kveðst hafa eytt skjölunum til að vernda heimildamenn, sem oft hafa hætt lífi sínu til að safna gögnunum og senda á Wikileaks. Í tilkynningu sem birtist á heimasíðu Wikileaks síðastliðinn laugardag og virtist skrifuð af Julian Assange kom hins vegar fram að stefna síðunnar væri að varðveita ekki upplýsingar um heimildarmenn. Því væru í þessu tilviki engar slíkar upplýsingar í hættu.

Í tilkynningunni sagði einnig að skjölin væru einstök og innihéldu mikilvægar upplýsingar sem vörðuðu mannréttindabrot, símahleranir, ný-nasista og fleira.

Domscheit-Berg var helsti samstarfsmaður Assange allt þar til hann yfirgaf Wikileaks í september á síðasta ári vegna persónulegra árekstra þeirra félaga. Þá hafði hann með sér þessi gögn. Aukinheldur hafði hann með sér upplýsingar um tölvukerfi og varnarmál Wikileaks, sem leiddi til þess að Wikileaks hefur ekki getað tekið á móti gögnum undanfarið.

Frá upphafi árs hefur Julian Assange kallað eftir birtingu þessara gagna, sem Domscheit-Berg hefur nú eytt fyrir fullt og allt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×